Hugtakið vinnustaðamenning (organizational culture) er margslungið og margar skilgreiningar hafa verið settar fram svo sem; sameiginleg forritun hugans; mynstur undirliggjandi hugmynda sem þróuð er af hópi sem lærir að koma til móts við vandamál sem steðja að honum bæði frá ytri og innri aðstæðum og nýjum meðlimum skipulagsheildarinnar er kennt á þann hátt að það er rétt leið til að skilja, hugsa og upplifa í þeim aðstæðum sem þau vandamál koma upp; undirliggjandi gildi, hugmyndir og lögmál sem þjóna undirstöðum stjórnunarhátta skipulagsheildarinnar og einnig þeirrar hegðunar og framkvæmdar á stjórnunarháttum sem bæði skýrir og styrkir þessa grundvallarþætti.
Viðskiptafræðin hefur stuðst við þá skilgreiningu að vinnustaðamenning er samansafn af hefðum, gildismati, stefnum, hugmyndum og viðhorfum sem mynda gegnheilt samhengi fyrir allt sem er gert í skipulagsheildinni og er kynnt nýliðum sem hin eina rétta menning. Í rannsókninni er gerð grein fyrir hugtakinu vinnustaðamenningu og varpað ljósi á íslenska vinnustaðamenningu og greint frá mun á vinnustaðamenningu fyrirtækja og stofnana þar sem stuðst er við aðferð Denison við mælingar á vinnustaðamenningu. Rannsóknin byggir á 44 fyrirliggjandi greiningum á eftirfarandivinnustaðamenningu fyrirtækja og stofnana. Heildarfjöldi svara er 4.071. Þar af eru 1.095 frá átta stofnunum og 2.976 frá 36 fyrirtækjum.
Á Dokkufundinum fáum við innsýn í aðferð Denison við mælingu á vinnustaðamenningu og niðurstöður slíkra mælinga kynntar. Niðurstöður þessarar rannsóknar gefa vísbendingar um að stofnanir virðast hafa veikari vinnustaðamenningu en fyrirtæki. Mestan mun er að finna á undirvíddunum Markmið, Framtíðarsýn, Teymisvinna og Vilji til breytinga en minnsti munurinn á víddinni Gildi.
Gylfi Dalmann, prófessor við Háskóla Íslands
Á vefnum – í Teams