fbpx

Hagnýt verkfæri í kistu sjálfbærniteyma

Kolefnisjöfnun fyrirtækja og stofnana

Þú lærir:

Að þekkja loftslagsbreytingar, grunnhugtök kolefnisjöfnunar, stefnumótun í loftslagsmálum, hvernig kolefnismarkaðir virka og hvernig hægt er að nýta þá til kolefnisjöfnunar. Að loknu námskeiði hafa þátttakendur m.a. verkfæri til að meta loftslagsáhættu, meta losunarþætti innan starfseminnar og halda grænt bókhald. Þannig eru þátttakendur í stakk búnir að innleiða kerfi um kolefnisjöfnun í samræmi við kröfur staðalsins ISO 14064-1 sem fjallar um mælingar og skýrslugjöf um losun gróðurhúsalofttegunda sem og alþjóðlega viðurkenndar kröfur um kolefnisjöfnun.

Námskeiðið er fyrir:

 • Alla sem starfa við eða vilja kynna sér sjálfbærni
 • Alla sem sjá um eða vilja halda kolefnisbókhald
 • Alla þá sem vilja skilja hvað felst í kolefnisjöfnun
 • Alla sem vilja læra hvernig hægt er að nýta kolefnismarkaði til að ná árangri í loftslagsmálum
 • Alla sem vilja kynna sér hvernig loftslagsáhætta getur haft áhrif á starfsemi fyrirtækja og stofnana
 • Allt áhugafólk um loftslagsbreytingar
 • Starfsmenn stofnana og fyrirtækja sem leiðbeina öðrum þegar kemur að kolefnisjöfnun

Leiðbeinendur

Guðmundur Sigbergsson

Guðmundur er stofnandi og framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands. 2018 stofnaði hann vottunarstofuna iCert, sem vottar gæða-, umhverfis- og jafnlaunakerfi, og sá þar þörfina á skipulögðum kolefnismarkaði hérlendis og stöðlun þar að lútandi. Árið 2020 gaf iCert út fyrstu leiðbeiningar um kolefnisjöfnun sem gefnar hafa verið út á Íslandi. Þessar leiðbeiningar eru aðgengilegar á heimasíðu iCert (www.CO2Neutral.is). Árin 2010–2018 starfaði Guðmundur hjá Seðlabanka Íslands, síðast sem framkvæmdastjóri.

Guðmundur er formaður tækninefndar um ábyrga kolefnisjöfnun hjá Staðlaráði, þátttakandi í norrænni nefnd um það sama (e. Nordic Dialog on Voluntary Compensation) og verkefnisstjóri í samstarfsverkefni með Carbfix, Sorpu o.fl. um að búa til umgjörð um aðferðafræði Carbfix til þátttöku á kolefnismörkuðum. Guðmundur vinnur mikið með erlendum sérfræðingum sem búa yfir víðtækri reynslu af kolefnismörkuðum og aðgerðum í loftslagsmálum. Guðmundur er með bakgrunn í umhverfis- og byggingarverkfræði og áhættustjórnun frá Háskóla Íslands og Lundarháskóla í Svíþjóð.

Lilja Pálsdóttir

Lilja starfaði sem forstöðumaður áhættu- og fjárstýringar flugfélagsins Play en hefur lengst af starfað í fjármálaheiminum, bæði á mörkuðum og í eigna- og áhættustýringu Arion banka og Landsbankans. Um árabil starfaði hún hjá Íslandsbanka og forverum hans þar sem hún sá um hlutabréfaafleiðubók bankans. Hún lauk löggildingu í verðbréfamiðlun árið 2007 og tók ACI dealing certificate árið 2008. Þá hefur hún sótt fjölmörg námskeið um afleiður (m.a. hjá Euromoney í London og París). Lilja er með M.Sc. í rafmagnsverkfræði frá Háskóla Íslands.

Hvenær?

Sept. 2022 kl. 9.00 – 12.30

Staðsetning verður kynnt síðar. 

Af hverju þetta námskeið

Stofnunum og sveitarfélögum er skylt samkvæmt lögum að setja sér loftslagsstefnu. Loftslagsstefnan þarf að innihalda skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, aðgerðir svo þeim verði náð og kolefnisjöfnun starfseminnar. Kröfur til fyrirtækja eru sífellt að aukast þegar kemur að skýrslugjöf, markmiðasetningu um samdrátt í losun og kolefnisjöfnun. Námskeiðinu er ætlað að veita leiðsögn fyrir fyrirtæki og stofnanir um þau skref sem þarf að taka í átt að kolefnisjöfnun. Meðal annars verður stuðst við leiðbeiningar sem iCert gaf út árið 2020.

Alþjóðlega hafa rutt sér til rúms kröfur til kolefnisjöfnunar. Hérlendis er unnið að stöðlun krafna (sbr. vinna tækninefndar sem kennari námskeiðs veitir formennsku) til að samræma kröfur til kolefnisjöfnunar, sem aftur gerir fyrirtækjum og stofnunum kleift að framkvæma kolefnisjöfnun á samræmdan máta og auðvelda neytendum að taka upplýsta afstöðu um fullyrðingar þeirra. Á námskeiðinu  verður farið yfir kröfur til kolefnisjöfnunar og hvernig megi uppfylla þær.

Markmið námskeiðsins

 • Að þátttakendur öðlist dýpri skilning á loftslagsbreytingum og -áhættu
 • Að þátttakendur fái kynningu á loftslagssamningum (Kyoto bókunin og Parísarsamningurinn)
 • Að þátttakendur geti greint losunarþætti fyrirtækja og stofnana og haldið loftslagsbókhald (grænt bókhald)
 • Að þátttakendur þekki leiðir til að draga úr losun
 • Að þátttakendur öðlist skilning á því hvernig nýta má kolefnismarkaði til að ná skammtíma- og langtímamarkmiðum
 • Að þátttakendur fái innsýn í hvernig skilgreina má umfang losunar (e. boundary)
 • Að þátttakendur fái innsýn í tilgang og virkni kolefnismarkaða
 • Að þátttakendur öðlist skilning á hugtakinu kolefnisjöfnun (e. compensation / offsetting)
 • Að þátttakendur skilji tilgang vottunar á kolefnisjöfnun og loftslagsverkefnum
 • Að þátttakendur skilji hvernig stofnanir og fyrirtæki geta stuðlað að því að ná markmiðum Parísarsamningnum
 • Að þátttakendur skilji hvað grænþvottur er og hvernig hægt er að forðast hann

Um námskeiðið

Síðustu ár hefur orðið vitundarvakning í loftslagsmálum og þeim gríðarlega neikvæðu áhrifum sem athafnir mannkyns hafa og hafa haft á loftslagsbreytingar. Stærsta áskorun okkar kynslóðar er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda svo komandi kynslóðir geti notið þeirra auðlinda sem jörðin hefur upp á að bjóða. Loftslagsvandinn er ekki bara stjórnvaldsvandi heldur samfélagsvandi sem allir þurfa að taka þátt í að leysa með því að grípa til aðgerða.

Loftslagsmál eru á allra vörum og fyrirtæki fara fram með yfirlýsingar um kolefnisjöfnun og/eða -hlutleysi. Nálgun þeirra á kolefnisjöfnun hefur verið misjöfn og túlkun þeirra á hugtökum ólík. Tækninefnd, undir formerkjum Staðlaráðs, hefur unnið að samræmdum kröfum til kolefnisjöfnunar og þýðingu orðsins í samhengi fyrirtækja og stofnana. Kennari námskeiðsins er formaður tækninefndarinnar. Gefin verður út tækniforskrift sem lýsir þeirri vegferð sem fyrirtæki og stofnanir þurfa að tileinka sér til þess að geta haldið fram kolefnisjöfnun.

Þátttakendur á námskeiðinu fá 20% afslátt af staðlinum ÍST EN ISO 14064-1 sem farið verður yfir á námskeiðinu.

  Á námskeiðinu verður m.a. farið yfir eftirfarandi atriði

  • Gróðurhúsalofttegundir
  • Gróðurhúsaáhrif
  • Loftslagsbreytingar
  • Kyoto bókun
  • Parísarsamningurinn
  • Skuldbindingar Íslands
  • Lögbundir kolefnismarkaðir (EU ETS)
  • Losunarskattar (kolefnisgjöld, gjöld á F-gös)
  • Frjálsir kolefnismarkaðir (e. voluntary carbon markets)
  • Hvað er loftslagsáhætta
  • Loftslagsstefna
  • Skilgreiningu á umfangi (e. scope / boundary)
  • Bein og óbein losun (e. direct / indirect, scope 1, 2 and 3)
  • Losunarstuðlar
  • Útreikningur á kolefnisspori
  • Markmiðasetning
  • Hvað eru loftslagsverkefni
  • Tegundir loftslagsverkefna
  • Kröfur til loftslagsverkefna
  • Úttektir og vottun verkefna
  • Skráning loftslagsverkefna
  • Kolefniseiningar og virkni þeirra
  • Hvað felur kolefnisjöfnun í sér

  Verð

  Almennt verð er kr. 35.100 EN fyrir starfsmenn aðildarfyrirtækja Dokkunnar kr. 32.000 – OG – ef keypt eru 2 sæti eða fleiri er veittur sérstakur 10% afsláttur og er verðið þá kr. 28.800 fyrir hvert sæti til starfsmanna aðildarfyrirtæka og kr. 31.600 til annarra.

  Hvar?

  Staðsetning verður kynnt þegar nær dregur.